Fræðaþing 2023–2025

Öskudagsþing 12. febrúar 2024


Einar Sveinbjörnsson og Sveinn Gauti Einarsson
Gervigreind í hitaspám – einkum þegar spáð er miklu frosti

Hvernig gagnast gervigreindin í hitaspám? Sýnd eru dæmi um líkan sem byggir á 10 ára mælingum veðurstöðva og ERA 5 endurgreiningunni á sama tíma (2014-2023) . Hagnýttar eru 20 safnspár úr bandaríska GEFS líkaninu sem gefa trúverðuga niðurstöðu þar sem dregur markvert úr meðaskekkju í hita- og einnig vindaspá. Einkum er áhugavert hve vel tekst að draga úr skekkjunni í 5 til 7 daga spá, þegar hefðbundnar reiknaðar spár gera oftast ráð fyrir of snörpu kuldakasti að vetri. Hagnýtingin felst m.a. í bættri stýringu vatnsnotkunar hjá hitaveitum.


Negar Ekrami og Haraldur Ólafsson
Fylgni meðalhita aðliggjandi mánaða á norðurslóðum um sumar og haust

Fylgni meðalhita aðliggjandi mánaða á norðurslóðum er könnuð fyrir sumar og haust. Í ljós kemur allmikill breytileiki. Gögnin bera vitni um áhrif breytileika í hlutfalli Bowens á meðalhitann, en þau áhrif virðast skila sér í breytileika í vindakerfum með tilheyrandi breytileika í lofthita.


Páll Ágúst Þórarinsson, Linnea Huusko, Joakim Pyykkö & Gunilla Svensson
Resolution dependence of the turbulent atmospheric boundary layer in global storm-resolving climate simulations

Nýjasta kynslóð loftslagslíkana nálgast nú upplausn á kílómetra skalanum. Eitt af stærstu markmiðunum með slíkum líkönum er að geta leyst upp hálfkvarða lóðstreymisstorma og þá sérstaklega í hitabeltinu fyrir betra geislunarjafnvægi í lofthjúpnum. Áhrif þessara breytinga á upplausn á lýsingu jaðarlagsins er þó enn óþekkt og hefur ekki verið könnuð. Með tölfræðilegri greiningu á gögnum frá völdum stöðum á hnettinum, tekin úr keyrslum á IFS líkani ECMWF sem partur af nextGEMS verkefninu, skoðum við hvernig breytingar í láréttri upplausn líkansins hefur áhrif á nokkur ferli í jaðarlaginu. Við sjáum að breytingin frá 9 km upplausn niður í 2,5 km hefur engin veruleg áhrif á þessa jaðarlagsstika og ferli yfir mest allan hnöttinn. Nokkrar litlar breytingar eru sjáanlegar á dýpt og byggingu jaðarlagsins í hitabeltinu en það reynist flókið að greiða í sundur hvort það sé vegna breytinga á stikun á lóðstreymi eða breytingar á upplausn í líkaninu. Jafnframt sjást litlar sem engar breytingar á afleiddum jaðarlagsstikum sem gefa til kynna áhrif sem jaðarlagið hefur á hringrás lofts í lofthjúpnum. Dýpri rannsókn á orsökum þeirra litlu breytinga og áhrifa sem sjást reyndist efrið vegna mikils skorts á viðeigandi gögnum í tíma og rúmi og gríðarlegrar stærðar gagnanna.


Kristín Hermannsdóttir
Sjónvarpsveður í 57 ár

Veðurfréttir í sjónvarpi hafa verið á dagskrá RÚV frá 6. febrúar 1967 og ávallt verið fluttar af veðurfræðingum. Í myndasafni RÚV eru til ýmis brot af veðurfréttum, kortum og umfjöllun um veður. Verður stiklað á stóru í því efni sem er til á tölvutæku formi og farið yfir söguna.


Flutningur á mælireit Veðurstofunnar í Reykjavík: Samanburður mælinga
Kristín Björg Ólafsdóttir og Þórður Arason

Veðurmælingar hafa verið framkvæmdar í mælireit Veðurstofunnar við Bústaðaveg í Reykjavík í yfir hálfa öld. Vegna veðurfarsbreytinga og hlýnunar jarðar er mikilvægt að hrófla ekki við slíkum grunnmælireitum. Hins vegar þóttu þessi rök léttvæg í samanburði við þörf á þéttingu
byggðar og því undirrituðu fjármálaráðherra og borgarstjóri samkomulag, 2. júní 2017, sem fól í sér flutning mælireitsins. Áður en athuganir voru formlega fluttar í nýja reitinn, 1. október 2023, voru gerðar samanburðarmælingar milli mælireitanna. Samanburður stóð í tvö heil ár frá 1. júní 2021 til 31. maí 2023. Unnið er að úrvinnslu helstu veðurþátta og stefnt að útgáfu ítarlegrar skýrslu um hana. Í erindinu verða kynntar nokkrar niðurstöður samanburðarins. Lofthiti er svipaður milli mælireita, sérstaklega eftir að kvörðunarvilla var lagfærð. Vindhraði er nokkru hærri í nýja reitnum. Þetta kemur fram í meðalvindhraða, hámarksvindhraða og vindhviðum. Vindátt er sambærileg, en sjá má að hindranir í nærumhverfi hafa áhrif, m.a. má sjá truflanir frá Veðurstofuhúsi. Úrkoma er svipuð milli mælireita, munur milli reita er minni en munur milli mismunandi mæliaðferða innan sama reits. Snjódýpt er ögn minni í nýja reitnum, en hugsanlega fýkur snjórinn burt.


Haustþing 17. október 2023


Einar Sveinbjörnsson
Mælaborð úrkomuvöktunar í Almenningum

Í tengslum við öflugri mælingar sem nú eru gerðar á jarðhreyfingum á Siglufjarðarvegi hefur verið útbúið mælaborð úrkomu fyrir utanverðan Tröllaskaga. Í ljós hefur komið að jarðskriðs verður vart gjarnan samfara miklum rigningum. Mælaborðinu verður lýst og hvernig háupplausnar veðurspár koma að gagni. Fjallað um valin þröskuldsgildi og aðferð sem nýst gæti e.t.v. víðar við vöktun og “flöggun” á skriðuhættu. Mælaborð Almenninga bætir upplýsingagjöf til vegfarenda og ekki síður viðbragð og forvarnir starfsmanna Vegagerðarinnar.


Elísabet Þórdís Hauksdóttir
Notagildi trjástafs til að meta gróðureldahættu

Erindið er um fyrstu skoðun gagna úr trjástöfum. Trjástafir eru mælar sem eiga að líkja eftir gróðri og mæla raka og hita út frá því. Þessir mælar eru staðsettir í Húsafelli, Skorradal og á Þingvöllum og eru bunir að vera í gangi síðan desember 2013. Gögnin voru skoðuð fyrst í sumar og langar mig að kynna niðurstöðurnar úr þeirri vinnslu.


Katrín Agla Tómasdóttir
Öfgar í veðurfari í loftslagslíkönum

Útdrátt vantar


Rakel Óttarsdóttir
Nýting Copernicus gagna til að breyta jaðarskilyrðum sjávarfallslíkans

Erindið er um athugun á hvort breyting á jaðarskilyrðum á sjávarfallslíkaninu DELFT3D-FM með gögnum frá Copernicus bæti líkanið. Við breytingu jaðarskilyrðanna verður þetta nýtt líkan fyrir sjávarföll við Ísland og er þetta þá ný notkun á gögnunum frá Copernicus.


Gisli Helgason
Niðurkvörðun á vindi með djúpnámi (e. Downscaling Wind Fields using Deep Learning)

Útdráttur væntanlegur


Negar Ekrami og Haraldur Ólafsson
Fylgni meðalhita aðliggjandi mánaða á norðurslóðum um vetur og vor

Fylgni meðalhita aðliggjandi mánaða á norðurslóðum er könnuð fyrir vetrar- og vormánuði. Í ljós kemur mikill breytileiki. Fylgnistuðlar eru neikvæðir á köflum, en fara sums staðar upp fyrir 0,7 þar sem hæst er. Þrennt virðist hafa áhrif á fylgnina. Í fyrsta lagi útbreiðsla hafíss, en fylgni er há í grennd við hafísjaðarinn. Í öðru lagi snjóþekja og í þriðja lagi vindar sem tengjast breytileika í hafís og snjóþekju. Dæmi um hið síðastnefnda eru áhrif snjóþekju á hafgolu á Íslandi og svo virðist sem hafís við strendur Kanödu hafi merkjanleg áhrif á meðalvinda sem hafa áhrif á ferðalag kuldans sem tengist ísnum.

Öskudags 22. febrúar 2023


Einar Sveinbjörnsson
Nær Esjuskjólið í NA-átt alveg suðvestur á Fagradalsfjall?

16. til 20. desember gerði veður suðvestanlands sem olli því að Reykjanesbrautin lokaðist í um 30 klst. Fyrst snjóaði talsvert, síðan rofaði til með frosti. Meira en sólarhring eftir að snjóaði, hvessi af NA og létt mjöllin fór af stað. Reykjanesbrautin tepptist mjög fljótt og aðreinar hennar einnig. Gerð verður grein fyrir veðrinu og þeirri spurningu hvers vegna flestar ef ekki allar vindaspár ýktu Esjuskjólið í NA-áttinni, með þeirri afleiðingu að fínkvarðaspár misstu af skafrenningnum löngu eftir að ófært var orðið.
EcCBVS


Halldór Björnsson og Guðrún Elín Jóhannsdóttir
100 ára sjávarflóð við Íslandsstrendur

Ein af lykilstærðum þegar flóðahætta er metin er það flóð sem hefur 1% árslíkur. Slík flóð eru best metin með löngum mæliröðum, en hér á landi er einungis ein mælistöð (Reykjavík) sem hefur nægilega langa röð og af nægilegum gæðum til þess að hægt sé að nota hana við slíkt mat. Fyrir strandsvæði landsins í heild þarf að nota líkanreikninga og á Veðurstofunni var ICRA endurgreiningin notuð til þess að keyra strandsvæðalíkan (Delft3D-FM) til að búa til tímaraðir í stað mæliraða. Erindið fjallar um þessar keyrslur, úrvinnslu þeirra og sýnir dæmi um niðurstöður.


Esther Hlíðar Jensen
Jarðvegshiti og -raki við skriðuvöktun

Útdrátt vantarHalldór Björnsson
Sviðsmyndir um loftslagsbreytingar

Á vegum Vísindanefndar um loftslagsbreytingar hefur verið unnið úr sviðsmyndareikningum frá CMIP6 verkefninu, en í því reiknuðu nokkrir tugir loftslagslíkana úr sviðsmyndum um losun gróðurhúsalofttegunda. Erindið fer yfir þessa vinnu, álitaefni sem taka þurfti tilllit til við úrvinnslu og sýnir dæmi um niðurstöður. Einnig verða algengar spurningar um hafísár og kólnun á Norður-Atlantshafi ræddar, en dæmi um slíkar niðurstöður má finna í reikniniðurstöðum margra líkanan. Eftir sem áður hlýnar á Íslandi í flestum framreikningum, – jafnvel þó að það kólni í hafi sunnan við landið.


Trausti Jónsson
Tvær frásagnir af veðri í „Fornaldarsögum Norðurlanda“

Ekki er mikið af beinum veðurlýsingum í fornaldarsögum Norðurlanda, en koma þó fyrir. Eftir stuttan, loðinn inngang verður rætt um tvær veðurlýsingar. Sú fyrri er í Örvar-Odds sögu. Þar segir frá atburði í Bjarmalandsför. Hin síðari er í Þorsteins sögu Víkingssonar þar sem lýst er sérstæðri tegund gjörningveðurs. Gefur það tilefni til vangaveltna um ísmyndun á sjó og vötnum.