Fræðaþing 2009-2010

Haustþing Veðurfræðifélagsins

Sumarþing Veðurfræðifélagsins verður haldið þriðjudaginn 20. október í Orkugarði. Hér fer ágrip nokkurra erinda:

Eldgosavöktun: Hlutverk Veðurstofu Íslands
Theodór Freyr Hervarsson

Ágrip vantar.

Fjarkönnun á eldgosum og tengdum fyrirbærum
Ingibjörg Jónsdóttir, Guðrún Larsen, Friðrik Höskuldsson, Ármann Höskuldsson, Þorvaldur Þórðarson, Hreggviður Símonarson, Áslaug Geirsdóttir

Ágrip væntanlegt.

Öskumælingar yfir Íslandi og SGN
Haraldur Ólafsson

Sagt verður frá mælingum á ösku í lofti sem framkvæmdar voru með ljósgeisla úr flugvél þýsku loft- og geimferðarannsóknastofunnar í lofti við Ísland og yfir SGN.

Hvað veldur eldingum í eldgosum?
Þórður Arason

Ljósmynd af eldingu 17. apríl 2010, séð frá Kiðjabergi í Grímsnesi (fjarlægð 72 km). Myndin er tekin á 4 sek kl. 04:01:12, en ALDF eldingamælikerfi Veðurstofunnar mældi eldingu kl. 04:01:12.326 með straumstyrk 9.7 kA. Ljósm. Þórður Arason.Eldgos eru af ýmsum stærðum og gerðum, í sumum er mikið um eldingar í gosmekkinum, en í öðrum lítið eða ekkert. Á tilraunastofu er hægt að aðskilja rafhleðslur með ýmsum ólíkum aðferðum og vel er hægt að ímynda sér að sumir slíkir ferlar gætu verið til staðar í gosmekki. Því hafa komið fram fjölbreyttar hugmyndir um hvernig rafhleðslur sundrast og aðskiljast í gosmekki. Örðugt er að koma við beinum athugunum inni í gosmekki til að gera upp á milli hugmyndanna. Rétt er að nefna nokkra hleðslumöguleika: a) Ef vatni er skvett á glóandi hlut verður vatnsgufan sem stígur upp rafhlaðin. Gos undir vatni eða jökli gefur oft mikið af eldingum. Einnig er nokkuð af vatni í kvikunni sjálfri, sem hjálpar til að tæta hana í ösku. Vatnsgufan verður jákvætt hlaðin en askan neikvætt. b) Torleiðandi svífandi smákorn sem snertast og núast í rafsviði verða gjarnan rafhlaðin. Hleðslan er því meira áberandi sem kornastærð er minni. Þannig geta skraufþurrir sandstormar orðið mjög rafhlaðnir. Hugsanlega hleður askan sjálfa sig upp á slíkan hátt. c) Hætta er á hleðsluaðskilnaði þegar efni er rifið í sundur í litlar agnir. Þetta er að einhverju leyti sambærilegt við núning smákorna. Gasrík kvika sem kemur upp í eldgosi tætist í örfína ösku, sem gæti við það orðið rafhlaðin. Hleðslan fer eftir kornastærð. d) Veður-þrumuský verður til í öflugu uppstreymi lofts þar sem raki loftsins þéttist í litla skýjadropa. Við öfluga lyftingu lækkar þrýstingur og hiti fellur, litlir skýjadropar verða undirkældir og frjósa ekki fyrr en við -15 til -20°C. Hleðsluaðskilnaður í þrumuskýjum tengist frystingu dropanna, og hugsanlega er sambærilegt ferli að verki í gosmekki. Fjallað verður um nokkrar hugmyndir vísindamanna á síðustu 230 árum, um uppruna goseldinga, og áhugaverðar mælingar sem gátu þó vart gert upp á milli ólíkra hugmynda. Svo gaus Eyjafjallajökull og kann að hafa ljóstrað upp svarinu í maí 2010.

Þættir sem hafa áhrif á hæð eldgosamakkar
Halldór Björnsson og Guðrún Nína Petersen

Öflugum eldgosum fylgja stórir mekkir sem bera ösku upp í háloftin. Settar hafa verið fram reynslulíkingar sem tengja hæð makkarins við streymi gosefna úr rásinni. Segja má að meðaltalsáhrif veðurfræðilegra þátta séu innbyggð í þessar reynslulíkingar, en ef skoðuð eru einstök eldgos eru veðuraðstæður auðvita breytilegar meðan á eldgosi stendur. Vindur hefur þannig greinileg áhrif, en styrkur hans ræður nokkru um hversu mikið innsog er á umhverfislofti, en slíkt innsog getur kælt mökkinn og sveigt hann í vindstefnu. Þessi áhrif verða stærri þegar vindhraðinn er meiri en uppstreymishraðinn í mekkinum. Vatnsgufa í mekkinum, bæði frá gosrásinni eða vegna innsogs raks lofts neðst í mekkinum hefur einnig áhrif á það hversu hátt mökkurinn rýs, því þétting gufunnar skilar varmaorku sem getur hækkað jafnvægishæð makkarins til muna. Hitahvörf geta haft áhrif á það hversu hátt mökkurinn nær, en svo þessi áhrif verði greinileg þarf mökkurinn að vera að nálgast flotjafnvægi þegar hann rekst upp í hvörfin. Stórgosum fylgir nægilega öflugt uppstreymi til að til að kíla gat á veðrahvörfin og bera ösku, vantsgufu og brennisteinssambönd upp i heiðhvolfið.

Þessir þættir hafa allir áhrif á það í hvaða hæð mökkurinn nær jafnvægi. Þessi hæð er augljóslega ráðandi fyrir hversu hátt öskuburður frá eldstöðinni nær, og þar með hversu langt frá eldstöðinni askan dreyfist.

Með gosmökk á radarnum
Guðrún Nína Petersen og Þórður Arason

Meðan á Eyjafjallajökulsgosinu stóð var veðursjá (radar) Veðurstofu Íslands á Miðnesheiði nýtt til að vakta hæð gosmakkarins. Athuganirnar voru gerðar á 5 mínútna fresti frá 14. apríl til 23. maí. Gagnaserían verður kynnt og rætt vítt og breitt um athuganirnar.

Vindhraði og vindorka á Íslandi
Kristján Jónasson

Síðastliðið sumar var unnið að gerð gagnagrunns um sjálfvirkar vindmælingar á Íslandi og fyrstu útgáfu vindahraðakorts sem byggðist á þeim. Farið var yfir allar 10-mínútna vind­hraða­mæl­ing­ar sem eru í gagnagrunni VÍ með aðstoð forrits og eytt nöglum og bilana­tíma­bilum. Jafnframt hefur verið gerð könnun á orkuframleiðslugetu vindmylla eftir vind­hraða og reynt að meta hvernig vindhraði er háður hæð yfir landi. Útfrá þessum forsendum var gerð fyrsta útgáfa af vindorkukorti yfir Ísland.

Veðurdagbók fyrir Reykjavík
Emil H. Valgeirsson

Frá árinu 1986 hef ég sem áhugamaður um veður skráð daglegt veður í Reykjavík með einföldum og myndrænum hætti þar sem reynt er að lýsa einskonar meðalveðri hvers dags. Í skráningunum er innifalið einkunnakerfi þar sem hver dagur fær sína veðurfarslega einkunn á skalanum 0-8 út frá fjórum veðurþáttum: sólskini, úrkomu, vindi og hita. Þannig er hægt að bera saman veðurgæði einstaka mánuða eða lengri tímabila. Í erindinu er sagt stuttlega frá hvernig skráningarnar hófust, þeim lýst og sýnd dæmi um skráningar auk myndrænna samantekta.

SARWeather- Veðurspár í leit og björgun
Ólafur Rögnvaldsson

Veðurkort af belgingur.isÞað er regla frekar en undantekning að aðgerðir í leit og björgun hefjast oft í slæmu veðri. Í öllu falli hefur veður mikil áhrif á aðgerðir viðbragðsaðila og taka þarf tillit til þess í öllum áætlunum og þegar kemur að því að meta öryggi björgunarfólks á vettvangi. Góðar veðurupplýsingar og veðurspár geta skipt sköpum um hvernig til tekst í leit og björgun á sjó og landi. SARWeather veitir björgunaraðilum aðgang að notendanvænu vefkerfi til þess að panta sérsniðnar veðurspár. Í fáeinum skrefum er hægt að panta veðurspá fyrir hvaða stað sem er í heiminum. Veðurspárnar eru uppfærðar sjálfvirkt á meðan á aðgerðum stendur. Það notast við öflug tölvueyki sem tryggja samfelldan uppitíma og nauðsynlega reiknigetu sem þarf til þess að keyra háupplausnarveðurspár.SARWeather er rannsóknarverkefni sem er leitt af Reiknistofu í veðurfræði, og unnið í samstarfi við NOAA/ESRL, Háskólann í Bergen, Fróðskaparsetur Færeyja, og íslensku sprotafyrirtækin IO og Sjá – viðmótsprófanir. Til að tryggja að SARWeather nýtist björgunar- og leitaraðilum sem best þá hefur þróun SARWeather verið unnin í nánu samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra

Ný langtímaspá fyrir öldina
Kristján Jónasson

Ný langtímaspá fyrir öldinaÁrið 2004 gerði undirritaður hitaspá fyrir Reykjavík á 21. öld, sem byggðist á sjálfsaðhvarfslíkani af ársmeðalhita 1866-2003 og IPCC skýrslunni frá árinu 2000. Nú hafa bæst við sex ára mælingar og ný IPCC skýrsla er komin út, og hefur spáin verið endurskoðuð með þessum gögnum. Í erindinu verður skoðað hvernig spáin hefur breyst.


Sumarþing Veðurfræðifélagsins

Sumarþing Veðurfræðifélagsins verður haldið þriðjudaginn 15. júní í Orkugarði. Hér fer ágrip nokkurra erinda:

Air temperature variations on the Atlantic – Arctic boundary since 1802
Kevin R. Wood(1), James E. Overland(2), Trausti Jónsson(3) and Brian V. Smoliak(4)

A two-hundred year instrumental record of annual surface air temperature in the Atlantic – Arctic boundary region was reconstructed from four station-based composite time series. The new time series adds seventy-one years to the previously available record, and is well validated by ice core records, other temperature proxies, and historical evidence. This record provides new perspective on past climate fluctuations in a region where pivotal climate system processes occur and where unexplained low-frequency variations were observed during the 20th century.

1)Joint Institute for the Study of the Atmosphere and Oceans (JISAO), 2)NOAA Pacific Marine Environmental Laboratory, 3)Icelandic Meteorological Office, 4)University of Washington, Dept. of Atmospheric Sciences

Vik frá landsjöfnuðum hita. Árstíðasveifla
Trausti Jónsson

Kaldara er á vetrum en að sumri, árstíðasveiflan er hins vegar ekki jafnstór á öllum veðurstöðvum landsins, né eins í laginu. Hver stöð á sér vik frá meðaltali landsins í hverjum mánuði. Hér er litið á landfræðilega dreifingu útgilda á árstíðasveiflu þessara vika. Ekki kemur á óvart að tiltölulega kalt er inn til landsins á vetrum og þá er hiti þar lægstur miðað við landsmeðaltalið. Öðru vísi er farið á sumrin, þá er hiti inn til landsins hærri en landsmeðalhitinn. Á sumrin er kalt við sjóinn en þar er tiltölulega hlýtt á vetrum. Til viðbótar þessum almennu og lítt óvæntu sannindum koma smáatriði á óvart. Farið verður í nokkur þeirra í erindinu.

Hágildi í úrkomu
Óli Páll Geirsson

Við höfum úrkomumælingar frá 86 mismunandi veðurathugunarstöðvum á Íslandi frá árinu 1961 til ársins 2006. Mælingarnar eru notaðar til þess að smíða tölfræðilegt líkan til að spá fyrir um árlega 24 klst. hámarskúrkomu á Íslandi.

Notast verður við bayesískt stigskipt líkan þar sem gert er ráð fyrir að hámarskúrkoma fylgir lognormal dreifingu. Slíkt líkan gefur góða hugmynd um hvernig meðaltöl hegða sér en gefur ekki nauðsynlega góða raun fyrir hágildi.

Hágildi/lággildi í hitastigi
Birgir Hrafnkelsson

Sameiginlegur tímaþáttur yfir allt Ísland fyrir hágildi í hitastig er metinn fyrir árin 1961 til 2006. Tímaþátturinn samanstendur af línulegum þætti og slembiþætti með sjálffylgin. Einnig er tekið tillit til þess að mælingar frá sama ári lúta fylgni í rúmi. Á sama hátt er tímaþáttur yfir allt Ísland fyrir lággildi í hitastig einnig fundinn. Með þessu móti fæst betra mat á aukningu yfir lengri tíma í hágildum og lággildum í hitastigi.

Sumarspár – má eitthvað gagn hafa af þeim?
Einar Sveinbjörnsson

Spá um frávik sumarhitaÁrstíðarspár hafa verið reiknaðar og gefnar út um nokkurra ára skeið. Notkunarsvið slíkra spáa snýr einkum að frávikum hita og úrkomu. Fjallað verður um reynslu hérlendis af árstíðarspám ECMWF nokkur undanfarin ár fyrir þriggja mánaða tímabilið júní til ágúst. Einnig verður minnst á aðra spástika að vori sem komið gætu að gagni þegar spáð er í veðufar komandi sumars.

Ný langtímaspá fyrir öldina
Kristján Jónasson

Ný langtímaspá fyrir öldina Árið 2004 gerði undirritaður hitaspá fyrir Reykjavík á 21. öld, sem byggðist á sjálfsaðhvarfslíkani af ársmeðalhita 1866-2003 og IPCC skýrslunni frá árinu 2000. Nú hafa bæst við sex ára mælingar og ný IPCC skýrsla er komin út, og hefur spáin verið endurskoðuð með þessum gögnum. Í erindinu verður skoðað hvernig spáin hefur breyst.

Af mælingum með ómönnuðu flugfari og háupplausnar veðurspám
Marius O. Jonassen

Súmó-vélinWith the ever increasing computer power as well as the recent miniaturization of electronic components, new possibilities within meteorological research and forecasting emerge. On one hand, modern NWP systems allow for very high resolution simulations and on the other hand new instrument platforms make in-situ measurements more readily available. The latter are not only important for validation of NWP products, they also bear a potential of improving the NWP products themselves through data assimilation. An example of such a platform is UAS systems. With their unique flexibility, relatively user friendly and cost efficient operation, these systems are capable of providing a data coverage in both space and time not achievable by conventional instrument platforms.

At hand, we have the UAS Small Unmanned Meteorological Observer (SUMO), developed at the Geophysical institute at the University of Bergen and the NWP system Weather Research and Forecasting model (WRF). The main aim for this study is to explore the possibility of improving the WRF model output by assimilating SUMO data using a WRF 3D-VAR system.

A central motivation for this combined system is related to a system currently under development at the Institute for Meteorological Research (IMR). The system is intended to provide WRF weather forecasts on demand via an online-interface. An important target group is search and rescue (SAR) operations, in which an accurate weather forecast might prove crucial. If proved useful, an idea is to deploy SUMO in-field during a rescue operation, providing live feed of meteorological data, in order to directly improve the on-demand weather forecast.

Currently, tests with data provided by the MOSO field campaign conducted at southern Iceland last summer are undertaken. Preliminary results from these tests will be presented together with a short introduction of the SUMO system and a sketch for future plans.

Hléiður – Kynngi Snæfellsjökuls yfir Reykjavík
Hálfdán Ágústsson

Hléiður á FaxaflóaÍ erindinu er lýst hléiðum (sveipum/hvirflum, e. vortex) sem bárust í norðanátt 12. ágúst 2009 frá Snæfellsjökli og að Reykjavík 3-4 klst síðar. Röð tunglmynda sýnir braut og hraða hvirflanna yfir Faxaflóa. Sjálfvirkar mælingar á höfuðborgarsvæðinu sýna breytingar í vindhraða, vindátt og skýjahulu þegar einn hvirflanna berst yfir Reykjavík og áfram til suðausturs. Líkanreikningar í mjög hárri upplausn herma myndun hvirflanna hlémegin Snæfellsjökuls og leið þeirra að Reykjavík.

Fréttir af norræna veðurþinginu 2010
Guðrún Nína Petersen

Norræna veðurþingið 2010Norræna veðurþingið er að þessu sinni haldið í Helsinki, 7.-11. júní, http://www.fmi.fi/international/nordic_16.html. Á sumarþingi Veðurfræðifélagsins verða fluttar fréttir af þinginu, í myndum og máli. Tæpt verður á helstu umræðuefnum þingsins og öðru sem vert þykir að nefna.


Þorraþing Veðurfræðifélagsins

11. febrúar 2010

Þorraþing Veðurfræðifélagsins verður haldið fimmtudaginn 11. febrúar í Orkugarði. Veðurfræðifélagið er opið öllum áhugamönnum um veður og veðurfræði og þingið sömuleiðis. Hér fer ágrip nokkurra erinda:

Einfalt líkan til þess að reikna afrennslisaukningu frá jöklum í hlýnandi loftslagi
Tómas Jóhannesson

Gert er ráð fyrir að hlýnandi veðurfar hafi mikil áhrif á afrennsli jökuláa hér á landi á næstu áratugum. Jökulafrennsli kann að vaxa um 25-100% miðað við afrennsli þegar jöklar eru í jafnvægi og árstíðasveifla og dægursveifla rennslisins breytast. Jöklar hörfa og yfirborð þeirra lækkar þegar afkoman er neikvæð langtímum saman. Þá dregur smám saman úr aftur afrennslinu frá því svæði sem í upphafi var hulið jökli uns það nálgast aftur jafnvægi við árlega úrkomu.

Hér á landi er gert ráð fyrir því jöklar hverfi að mestu á næstu 100-200 árum þannig að jökulþáttur afrennslisins verði á endanum lítill sem enginn á flestum vatnasviðum landsins. Sýnt hefur verið fram á að náið veldissamband er milli flatarmáls og rúmmáls jökla.

Þetta samband má nota til þess að setja upp einfalt jöklalíkan og tengja það vatnafræðilegu líkani þannig að vatnafræðilega líkanið geti tekið tillit til hörfunar jökla þegar það er keyrt fyrir löng tímabil með hlýnandi veðurfari. Greint verður frá forsendum og eiginleikum slíks jöklalíkans og áformaðri beitingu þess við afrennslisreikninga hér á landi og í Noregi.

Jöklar á Íslandi: jöklafræði, gagnaöflun og rannsóknir
Finnur Pálsson, Helgi Björnsson, Sverrir Guðmundsson og Eyjólfur Magnússon

Frá því 1980 hefur verið unnið kerfisbundið að öflun grunngagna um íslenskra jökla við Raunvísindastofnun Háskólans. Botn og yfirborð stóru hveljöklanna hefur verið kortlagt með íssjá, nákvæmnisloftvog og GPS tækjum á mælisniðum með um 1 km millibili. Jökulyfirborð hefur á seinni árum líka verið kortlagt eftir gögnum frá gervitunglum. Afkoma Vatnajökuls hefur verið mæld frá árinu 1991-92 og Langjökuls frá 1996-97. Stafræn kort vetrar, sumar og ársafkomu hafa verið gerð eftir mælingunum. Skriðhraði hefur verið mældur á afkomumælistöðum með GPS tækjum og hraðasvið verið unnin útfrá gervitunglagögnum. Á stöku stað hefur skriðhraði verið mældur samfellt í langan tíma.

Í rúman áratug sjálfvirkar veðurstöðvar skráð veðurþætti og leysingu að sumarlagi á Vatnajökli og Langjökli. Gögn frá veðurstöðvunum hafa verið notuð til að meta orkuþætti sem bræða snjó og ís og til að finna vensl jökulleysingar og veðurþátta. Ofangreind gögn ásamt veðurgögnum hafa verið notuð sem inngangsstærðir í reiknilíkun af hreyfingu og afkomu jöklanna.

Líkönin hafa verið nýtt til að skoða viðbrögð jöklanna við breytingum í loftslagi.

Orkubúskapur á íslenskum jöklum: mælingar og dæmi um niðurstöður
Sverrir Guðmundsson, Helgi Björnsson, Finnur Pálsson og Hannes H. Haraldsson

Veðurstöð á Tungnaárjökli 2005 (Snævarr Guðmundsson)

Veðurstöð á Tungnaárjökli 2005 (Snævarr Guðmundsson).

Sjálfvirkar veðurstöðvar hafa verið reknar á Vatnajökli síðan 1994 og á Langjökli síðan 2001. Gögn frá stöðvunum hafa m. a. verið notuð til að meta orkustrauma sem berast að yfirborði jöklanna og valda leysingu, kanna tengsl veðurþátta innan og utan jökla og athuga áreiðanleika einfaldra reynslubundinna líkanna af jökulleysingu eins og t. d. gráðudagalíkana.

Niðurstöður hafa aukið skilning á orsakaþáttum leysingar og tengslum hennar við veðurfar, snjósöfnun og yfirborðseiginleika jöklanna. Að jafnaði veldur heildargeislun um 75% af leysingunni neðst á leysingarsvæðum og allt að 100% eða meira ofarlega á jöklunum, en þó stjórnast sveiflur í leysingu gjarnan meira af iðustraumsvarma en geislun.

Sem dæmi um niðurstöður má nefna að orkubúskaparmælingarnar hafa verið notaðar til að greina orsakaþætti mikilla leysinga á Brúarjökli og flóða í Jöklu í ágúst 2004 og júlí 2005.

Samband veðurathugana í Eyjafirði og afkomumælinga smájökla í Svarfaðardal
Sveinn Brynjólfsson og Skafti BrynjólfssonÁkoma mæld á Búrfellsjökli 5. maí 2009 (Sveinn Brynjólfsson).

Ákoma mæld á Búrfellsjökli 5. maí 2009 (Sveinn Brynjólfsson).

Á Tröllaskaga er fjöldi smájökla í hangandi dölum og skálum og hafa nokkrir þeirra verið rannsakaðir síðustu áratugi bæði af erlendum og innlendum vísindamönnum. Í framdal Svarfaðardals eru tveir litlir framhlaupsjöklar, Búrfellsjökull og Teigarjökull, sem rannsakaðir voru í meistarverkefni við HÍ 2009. Á þeim vestari, Búrfellsjökli hafa verið gerðar afkomumælingar síðan vorið 2006.

Samband afkomu og hæðar er ekki einfalt og virðist ákoma stjórnast meira af landslagi og áhrifum þess á staðbundið veður. Þegar vetrarúrkoma á nokkrum veðurstöðvum í nágrenninu er skoðuð yfir tímabilið 1970-2009 sést að fylgni á milli stöðva er nokkuð góð. Við utanverðan Tröllaskaga á Skeiðsfossi í Fljótum og í Ólafsfirði mælist ávallt mun meiri úrkoma en á Tjörn í Svarfaðardal og innar í Eyjafirði.
Ákomumælingar á öðrum jöklum í nágrenninu hafa verið stopular en sýna þó mikinn breytileika sem benda til að ríkjandi vindátt yfir veturinn hafi talsverð áhrif á ákomu jöklanna norðantil á svæðinu.

Rek hafíss í Austur-Grænlandsstraumi sunnan Scoresbysunds
Ingibjörg Jónsdóttir

Gæði fjarkönnunargagna til hafíseftirlits hafa aukist mikið á undanförnum árum. Unnt er að fylgjast með tiltölulega litlum hafísfyrirbærum, mjög gisnum hafís og einstökum spöngum, þegar þessar myndir fást. MODIS lit-, hita- og miðinnrauðar myndir fást daglega allt árið, og nýtast allt að fjórar slíkar myndir á dag fyrir íslensk hafsvæði. Rúmfræðileg upplausn þessara mynda er í besta falli 250m. ENVISAT ratsjármyndir fást núorðið 3-4 sinnum í viku af íslenskum hafsvæðum. Upplausn þeirra mynda eru rúmlega 100m. Hver myndgerð hefur sína kosti og galla og yfirleitt þarf að nýta margar myndgerðir og nokkrar myndvinnsluaðgerðir til að glöggva sig vel á ástandinu hverju sinni. Það er því orðið talsvert auðveldara að teikna hafísútbreiðslukort en ennþá nokkuð erfitt að spá fyrir um rek hafíssins enda spila allmargir þættir inn í það ferli. Sagt verður frá tilraunum Jarðvísindastofnunar til að fylgja eftir hafísflekum í Austur-Grænlandsstraumi sunnan Scoresbysunds, en tilgangurinn er að safna þekkingu um rekferli á þessum slóðum til að bæta hafísspár.

Rek hafísfleka 26.3.-4.4.2008. Bakgrunnur: MODIS ljósmynd frá www.seaice.dk

Rek hafísfleka 26.3.-4.4.2008. Bakgrunnur: MODIS ljósmynd frá www.seaice.dk

Ósonmælingar í Reykjavík 1957-2009
Árni Sigurðsson

Óson hefur verið mælt í Reykjavík með Dobson litrófsmæli og til nær ólitin mæliröð síðan 1957. Þó svo tækið sé komið nokkuð til ára sinna er það enn í toppstandi og notað til að sinna daglegu eftirliti með ástandi ósonlagsins yfir Íslandi. Á fáum stöðum á Jörðinni hefur óson verið mælt jafn lengi og í Reykjavík. Mælingarnar sýna að ósonlagið þynntist um 5 til 10% á tímabili frá um1975 til 1990 og síðan eru vísbendingar um hægfara bata á síðustu árum.

Aðstæður m.t.t. ósons í Heiðhvolfi eru á ýmsan hátt áhugaverðar svo norðarlega á norðurhveli jarðar, bæði er þar mikil árstíðabundin sveifla með hámarki síðla vetrar og lágmarki á haustin svo og umtalsverður svæðisbundinn breytileiki með einstaklega háum ósongildum yfir N-Kanda á vetrum en yfirleitt talsvert lægri gildum yfir N-Atlandshafi.

Óveður – aðferð til að meta styrk og afleiðingar í óveðrum
Einar Sveinbjörnsson

Sprenging hefur orðið í uppsetningu og rekstri vindmæla vítt og breitt um landið á síðustu 10-15 árum. Áður réði mat athugunarmanna á veðurhæð mestu á því hversu slæmt veður taldist vera ásamt örfáum vindmælum. Í dag er stöðugt blandað saman 10 mínútna meðalvindhraða (veðurhæð) og styrk mestu vindhviðu sem gerir örðugt að leggja mat á og bera saman óveður við eldri sambærileg tilvik.

Kynntur verður til sögunnar einfaldur stigi vinds til að meta líklegar afleiðingar óveðra hér á landi þar sem ekki er greint sérstaklega á milli mældrar veðurhæðar og vindhviðu.

The Bergen shelter
Marius O. Jonassen

Based on data from automatic weather stations in and around the Bergen area, in addition to high resolution numerical simulations, the special position of the Bergen centre as a place sheltered from stronger wind has been investigated. The simulations have been carried out using the Weather Research and Forecasting model (WRF) on a grid down to 111m horizontal resolution. Furthermore, numerical sensitivity tests have been done showing the importance of using a realistic topography as well as land surface in the model. Through removing the dominating mountain masses from the model topography, the Bergen shelter is showed to consist of both a blocking and a lee effect.

Hvasst við Hvarf
Guðrún Nína Petersen, Stephen Outten og Ian A. Renfrew

Veðurtunglamynd af Grænlandshafi 21. febrúar 2007

Veðurtunglamynd af Grænlandshafi 21. febrúar 2007. Línan sýnir flugleið rannsóknarflugvélarinnar frá Keflavík, að Hvarfi og svo tilbaka. Örvarnar sýna mælda vindátt í lágflugi. (Guðrún Nína Petersen)

Þann 21. febrúar 2007 var rannsóknaflugvél flogið að suðurodda Grænlands, Hvarfi, og austlæg vindröst mæld með dettisondum auk þess sem að flogið var í 30-50 m hæð yfir sjávarborðinu og aðstæður í vindröstinni mældar. Hér verður stuttlega farið yfir helstu mælingar og niðurstöður líkanareikninga af vindröstinni.

*****************************************************************

Haustþing Veðurfræðifélagsins

21. október 2009

Dagskrá haustþings

 • 13:00 Inngangur – Stjórn Veðurfræðifélagsins
 • 13:15 Fjarkönnun og rauntímaeftirlit með hafís – Ingibjörg Jónsdóttir
 • 13:30 Greining á gosösku og sandstormum með gervitunglagögnum – Hróbjartur Þorsteinsson
 • 13:45 Fjarkönnun og veðurfarstengd náttúruvá: Gróðureldar – Þröstur Þorsteinsson
 • 14:00 Athuganir á upptökum moldviðris á Austurlandi – Victor Kr. Helgason

Kaffihlé

 • 14:45 Meðalvindhraði á landinu. Eru sjálfvirkar og mannaðar stöðvar sambærilegar? – Trausti Jónsson
 • 15:00 Rok og rigning: áhrif vinds á úrkomumælingar – Þórður Arason
 • 15:15 Leitni í hitastigi – Birgir Hrafnkelsson
 • 15:30 MOSO: Veðurmælingar með fjarstýrðri flugvél sumarið 2009 – Haraldur Ólafsson
 • 15:45 SUMO-glíma við Esjuna: Túlkun vindmælinga frá MOSO – Hálfdán Ágústsson

Fjarkönnun og rauntímaeftirlit með hafís

Ingibjörg Jónsdóttir og Auðunn Friðrik Kristinsson
Ýmsar myndgerðir henta til fjarkönnunar á hafís, einkum ratsjármyndir, ljós-, hita- og miðinnrauðar gervitunglamyndir. Hafísþekjan breytist hratt og er afar fjölbreytileg: þykkt íssins og aldur, þéttleiki, landslag, snjóhula, bráðnun, hryggir, lænur, vakir og rek.

Borgarísjaka er oft að finna innan ísbreiðunnar auk þess sem þeir eru til nokkurra vandræða þegar hafísinn er fjarri, ekki síst á haustin. Engin ein myndgerð nýtist fullkomlega við hafíseftirlit en samanburður og samtvinnun ólíkra myndgerða hefur gefist nokkuð vel til að fylgjast með hafísnum við Ísland. Samanburður við upplýsingar og kort úr ískönnunarflugi Landhelgisgæslunnar hefur einnig gefist vel í flestum tilfellum þótt nýmyndun hafíss hafi stundum komið út sem þéttari ís á myndunum.

Stöðlum International Ice Charting Working Group er fylgt við ískortlagninguna þegar það á við, en við þróun aðferða er framsetning öllu frjálslegri. Landupplýsingakerfi eru notuð til myndvinnslu, kortagerðar og vörslu gagnanna.

Í erindinu verður greint frá helstu þáttum í hafíssögu síðastliðins árs og lögð sérstök áhersla á þá möguleika sem ný flugvél og búnaður Landhelgisgæslunnar býður upp á, ekki síst við eftirlit með borgarís. Sagt verður frá vinnufundi IICWG síðastliðið sumar og loks rætt um mikilvægi hafíseftirlits við breytt skilyrði í veðurfari og skipaumferð.

Greining á gosösku og sandstormum með gervitunglagögnum

Hróbjartur Þorsteinsson og Þröstur Þorsteinsson
Gervitunglagögn á mismunandi bylgjulengdum er hægt að nota til að auðkenna gjósku vegna eldgosa með mismuna-aðferðum (Wen and Rose, 1994). Greiningin er áreiðanleg ef hitastig gjóskunnar er nægjanlega frábrugðið hitastigi bakgrunns eða bakgrunnsgeislunar. Einnig gagnast gervitunglagögn á sýnilega sviðinu við greiningu á sandstormum. Mögulega er hægt að greina sandstorma hérlendis með mismuna-aðferðum. Aðstæður þurfa hins vegar að vera “réttar” og rannsaka þarf gögn frá atburðum sem sjást greinilega á sýnilega sviðinu til að þróa aðferðir til að meta hvenær og hversu nákvæmar upplýsingar er hægt að fá með þessum aðferðum.

Fjarkönnun og veðurfarstengd náttúruvá: Gróðureldar

Þröstur Þorsteinsson
Sinueldarnir miklu á Mýrum vorið 2006 sýndu, svo ekki varð um villst, að hættan vegna gróðurelda er raunveruleg á Íslandi. Fjarkönnunargögn á mismunandi bylgjulengdum frá MODIS nemunum, sem eru í Aqua og Terra gervitunglum NASA, veittu mikilvægar upplýsingar um ákafa og útbreiðslu eldanna. Unnið er að því að þróa sjálfvirkar rauntíma mismuna-aðferðir til að reikna hitafrávik, sér í lagi útgeislunarorku (fire radiative power), stærð svæðis sem logar á og hitastig.

Athuganir á upptökum moldviðris á Austurlandi

Victor Kr. Helgason og Árni J. Óðinsson
Uppfok og moldviðri þekkjast víða á Íslandi þegar þurrir vindar blása. Í aðdraganda og við byggingu Kárahnjúkavirkjunar var búist við að uppfok myndi aukast á Austurlandi við tilkomu Hálslóns. Landsvirkjun brást við með greiningu, rannsóknum, eftirliti og ýmsum mótvægisaðgerðum. Ýmsar landupplýsingar innan lónstæðisins voru greindar til að einangra erfiðustu svæðin, fallryksmælar hafa verið settir upp víða um austanvert landið, fylgst er með gervitunglamyndum af landinu og vökvun og fokgirðingum er beitt við heftingu uppfoksins.

En við hvaða skilyrði verður uppfok á Austurlandi, hverju skilaði greining landupplýsinganna, hvað safnast í fallryksmælana, hvað sést utan úr geimnum og duga mótvægisaðgerðirnar?

Meðalvindhraði á landinu

Trausti Jónsson
Eru sjálfvirkar og mannaðar stöðvar sambærilegar? Samfelldni langtímaraða er sífellt ógnað. Miklar breytingar á athugunarháttum og stöðvakerfi eru áhyggjuvaldar. Mönnuðum athugunum hefur fækkað mjög á undanförnum árum. Í fyrirlestrinum er fjallað um það hvort breytingar hafi orðið á meðalvindhraða vegna þessarar þróunar. Einnig er fjallað um breytingar á meðalvindhraða síðustu 85 árin. Minnst er á fleiri líklega skekkjuvalda í meðaltalsreikningum.

Rok og rigning

Þórður Arason
Í þessari rannsókn eru samtímamælingar í mælireit Veðurstofunnar við Bústaðaveg frá sjö úrkomumælum sl. 13 ár bornar saman og lagt mat á áhrif vinds á mælingarnar. Tveir mælanna eru neðanjarðar, með mælisop í jarðhæð (J1, J2). Álitið er að vindtruflanir séu mun minni í þeim mælum og er nokkuð áberandi að þeir safna meiri úrkomu en aðrir mælar þegar rignir í hvassviðri.

Sjálfvirkar stöðvar skrá á 10 mín. fresti uppsafnaða úrkomu með vigtunar- og vippumælum (S1, S2) og 10 mín. meðalvindhraða í 10 m hæð. Til eru gögn frá sjálfvirku stöðinni í Reitnum með úrkomumæli frá sumrinu 1996. Fyrsta sumarið eru úrkomugögnin áberandi lélegri og voru því eingöngu notuð gögn frá og með 1997. Úrkomumagn er mælt tvisvar á dag í venjulegum íslenskum mæli, kl. 18 og 9, fyrir skeytastöðina (R1). Sérmælingarnar með jarðmælunum fara einungis fram á sumrin (maí-okt.) og á virkum dögum kl. 9, en þá er einnig mælt í Tretjakov-mæli (Tr) og öðrum venjulegum íslenskum mæli (R2).

Valdir voru þeir dagar þar sem mælitímabil var 24 klst, þ.e. mælidögum eftir helgar og frídaga var sleppt. Einungis nýtast dagar þegar úrkoma mældist á einhverjum mælanna. Einnig voru sett takmörk við að sjálfvirka stöðin væri með heilleg gögn og að úrkomutegund á skeytastöðinni væri metin sem hrein rigning en ekki slydda eða snjór. Á þessum 13 árum, 1997-2009, höfum við slíkar samtímamælingar fyrir 580 rigningardaga. Sjálfvirku stöðvarnar sýna hvenær dagsins úrkoman féll og vindhraða þegar úrkoman féll. Með því að gefa sér að jarðmælarnir mæli rétt og sjálfvirku stöðvarnar sýni hvenær úrkoman féll má finna vindháð deyfingarföll fyrir alla úrkomumælana.

Leitni í hitastigi á Íslandi á árunum 1961 til 2006

Birgir Hrafnkelsson
Leitni í hitastig á árunum 1961 til 2006 í árlegum og mánaðarlegum gildum er metin fyrir meðaltalsgildi, hágildi og lággildi frá veðurstöðvum á Íslandi. Leitni í árlegu meðaltali er 0,19 gráður á Celcius á 10 árum. Fyrir árleg hágildi og lággildi er leitnin 0,43 og 0,61 gráður á Celcius á 10 árum. Leitnin er breytileg á milli mánaða og í flestum tilfellum jákvæð. Í nokkrum mánuðum er leitnin neikvæð en það gerist í mánuðunum sem teljast til byrjun vetrar og loka vetrar.

MOSO – Veðurmælingar með fjarstýrðri flugvél sumarið 2009

Haraldur Ólafsson, Dubravka Rasol, Hálfdán Ágústsson, Joachim Reuder, Marius O. Johannessen, Ólafur Rögnvaldsson og Sigurður Jónsson
Í Mosó-verkefninu er leitast við að lýsa staðbundum vindakerfum í tíma og rúmi. Í júli 2009 var flogið með ómönnuðu loftfari víða um neðri hluta veðrahvolfsins í því skyni að afla gagna til að lýsa vindum á borð við hafgolu og vindrastir í grennd við Esju. Til viðbótar við flugin var veður mælt á jörðu niðri með sjálfvirkum færanlegum veðurstöðvum. Leitast verður við að veita yfirlit um verkefnið og sýnd verða nokkur dæmi um vel heppnuð flug sem sýna þversnið sólfarsvinda.

SUMO-glíma við Esjuna: Túlkun vindmælinga

Hálfdán Ágústsson
Þann 15. júli 2009 var veður mælt sunnan Esjunnar með fjarstýrðri flugvél (SUMO). Mælingarnar voru hluti af alþjólega MOSO-mæliverkefninu. Vindur var víðast hvar hægur af norðaustri en nokkuð byljóttur og norðanstæður sunnan Esjunnar. Mælingar með SUMO-vélinni gáfu til kynna mjög staðbundið hámark í vindhraða í um 100 m hæð sunnan Esjunnar en vindur var mun hægari þar fyrir ofan. Leitast verður við að túlka mælingarnar og lýsa tilraunum við að herma ástand lofthjúpsins með líkanreikningum í mjög hárri upplausn.

Sumarþing Veðurfræðifélagsins 2009

3. júní 2009

Dagskrá sumarþings

 • 13:00 Trausti Jónsson – Dreifing og ákefð úrkomu eftir vindáttum
 • 13:15 Nikolai Nawri – Weather associated with major avalanche cycles in the Westfjords
 • 13:30 Björn Sævar Einarsson – Veðurrútun skipa: Grunnhugmyndir
 • 13:45 Einar Sveinbjörnsson – Ísmyndun á Þingvallavatni
 • 14:00 Halldór Björnsson – Líklegar breytingar á árstíðasveiflu lofthita á nýhafinni öld

Kaffihlé

 • 14:45 Guðrún Nína Petersen – Rannsóknasiglingar á Grænlandssundi í október 2008
 • 15:00 Haraldur Ólafsson – Mæliverkefni
 • 15:15 Kristín Hermannsdóttir – Veðurfarslegar álagsforsendur á raflínur
 • 15:30 Einar Sveinbjörnsson – Norðanhretið 8. maí 2009
 • 15:45 Trausti Jónsson – Fréttnæmir veðuratburðir, árstíðasveifla og langtímabreytingar

Dreifing og ákefð úrkomu eftir vindáttum

Trausti Jónsson
Fjallað er um hlut vindátta í úrkomu á landinu í heild sem og á einstökum veðurstöðvum. Allir vita að einkum rignir norðaustanlands í norðlægum vindáttum, en hversu stór hluti úrkomunnar þar fellur í norðlægum áttum? Á hvaða veðurstöðvum er hlutur einstakra norðlægra átta í heildarúrkomunni stærstur? Hvaða svæði um landið sunnanvert á sunnanáttarhámarkið? Hvaða svæði á suðaustanáttahámarkið? Einnig verður lítillega minnst á áttadreifingu úrkomu á sjálfvirkum stöðvum. Þar er upplausn í tíma og vindátt svo góð að greina má að þá staði þar sem hámarksúrkomuhlutur og ákefðarhámörk fara ekki saman.

Weather Conditions Associated with Major Avalanche Cycles in the Westfjords

Nikolai Nawri
Avalanches continue to be the most deadly natural phenomenon in Iceland. During the winter months, they also cause frequent damage to buildings and infrastructure, including roads, and may therefore temporarily cut off access to certain communities. In this presentation, based on ERA-40 reanalysis data, I will present a characterisation of weather conditions associated with major avalanche cycles in the Westfjords of Iceland during the past 50 years. Within a given Fjord, I will be looking at the different wind conditions associated with avalanches from different slopes. I will then take a wider look at composite atmospheric fields over the North Atlantic region during major avalanches, as well as deviations of these mean fields from the non-avalanche climatology. Finally, I will discuss 5-day histories of surface atmospheric conditions leading up to major avalanches, compared with those associated with small avalanches.

Veðurrútun skipa: Grunnhugmyndir

Björn Sævar Einarsson
Með batnandi veðurspám og hækkandi olíuverði hefur áhugi skipafélaga á að sigla eftir veðri og notkun þeirra á sérsniðinni veðurþjónustu stóraukist.
Grundvallarhugmyndafræði veðurrútunar verður kynnt, einkum siglingar milli heimsálfa, til dæmis milli Evrópu og Ameríku.

Ísmyndun á Þingvallavatni

Einar Sveinbjörnsson
Þingvallavatn er vatnsmikið og djúpt og leggur yfirleitt ekki fyrr en í janúar. Ísinn helst á vatninu í nokkrar vikur, stundum fram í apríl. Frá aldamótum hefur það hins vegar gerst í tvígang að vatnið hefur alls ekki lagt, en fá dæmi eru um að Þingvallavatn nái ekki að kólna nægjanlega til þess að það leggi um tíma. Það gerðist þó í tvígang snemma á hlýskeiðinu sem hófst upp úr 1920. Ráðandi þættir fyrir ísmyndun eru annars vegar hraði kólnunar vatnsins síðla hausts og hins vegar hvort í kjölfarið geri nægjanlegar frosthörkur í stilltu veðri. Ísinn hefur áhrif á frumframleiðslu vistkerfisins þegar vorar. Velt er vöngum um hvað verði um Þingvallaísa á komandi áratugum.

Líklegar breytingar á árstíðasveiflu lofthita á nýhafinni öld

Halldór Björnsson
Ljóst er að ef ekki verður dregið stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda mun hnattræn hlýnun halda áfram næstu áratugi eða jafnvel lengur. Flest loftslagslíkön spá því að vetrarhlýnun verði meiri en sumarhlýnun, a.m.k. á norðlægum slóðum. Þó virðist vera kerfisbundinn munur á niðurstöðum stórkvarðalíkana (GCM) og svæðisbundinna líkana (RCM), en í sumum þeirra síðarnefndu er vetrarhlýnunin mjög mismikil eftir mánuðum. Rætt verður um líklegar breytingar á árstíðasveiflu eins og hún birtist í GCM líkönum þeim sem notuð voru fyrir fjórðu úttekt milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, og breytingar eins og þær birtast í RCM líkönum ENSEMBLES rannsóknaverkefnisins. Sérstaklega verður hugað að áhrifum hafíss á breytingar á vetrarhita.

Rannsóknasiglingar á Grænlandssundi í október 2008

Guðrún Nína Petersen
Í október síðastliðnum var bandaríska rannsóknaskipið Knorr R/V við rannsóknir á Grænlandssundi. Árið áður hafði Árni Friðriksson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunarinnar, farið um svæðið og lagt út mælingabaujur til að mæla t.d. straumhraða, hita og seltu í sjónum, á mismunandi dýpi. Baujurnar eru með akkeri og eiga því ekki að færast úr stað. Mælingarnar eru gerðar reglulega og upplýsingarnar vistaðar í sjálfum baujunum þar til þær eru sóttar aftur. Megintilgangur rannsóknarleiðangursins í október var einmitt að sækja baujurnar auk þess að gera aðrar haffræðilegar mælingar auk veðurathuguna. Hér verður stiklað á stóru um fræðilegan bakgrunn, rannsóknarsiglinguna sjálfa og þær mælingar sem áttu sér stað.

Mæliverkefni

Haraldur Ólafsson
Í erindinu mun verða gefið yfirlit um nokkur helstu mæliverkefni, bæði nýliðnum, yfirstandandi og væntanlegum. Þar má nefna Flóhof, Gfdex, Greenex, Thorpex, Skúr, Esju, Mabla og Golu. Sagt verður stuttlega frá markmiðum og niðurstöðum eftir því sem við á.

Veðurfarslegar álagsforsendur á raflínur

Kristín Hermannsdóttir
Á Íslandi er rafmagn flutt frá framleiðendum til notenda með raflínum. Hérlendis eru um 3000 km af háspennuraflínum og víðast hvar ofanjarðar, þó krafa fólks í þéttbýli sé að rafmagn fari eftir jarðstrengjum. Raflínur ofanjarðar þurfa að standast ákveðið vind- og veðurálag til að slitna ekki á ögurstundu og hafa nokkrir starfsmenn Veðurstofunnar komið að því að meta þetta álag.
Árin 2007 og 2008 var unnið álagsmat á raflínur á Reykjanesi, frá Kröfluvirkjun til Húsavíkur, Blönduvirkjun að Akureyri, Hellisheiðarvirkjun að Þorlákshöfn og Mjólkárvirkjun að Gilsfirði.
Fyrir allar þessar línur var skoðaður sá vindur sem mælst hefur á veðurstöðvum á svæðinu og reynt að meta hvaða vinds má vænta á línuleiðunum út frá þeim mælingum. Farnar voru vettvangsferðir í sumum tilvikum, en í öðrum rýnt í kort, talað við heimamenn og skoðuð bilanasaga raflína sem eru til nú þegar.
Farið verður yfir þær forsendur sem notaðar eru við gerð vindálagsmats og sýndar tillögur á umræddum línuleiðum um viðmiðunargildi fyrir hámarksvind.

Norðanhretið 8. maí 2009

Einar Sveinbjörnsson
Föstudaginn 8. maí gerði norðanhríð og lentu ferðamenn í hrakningum á Vatnajökli og leiðbeindi Leifur Örn Svavarsson, starfsmaður VÍ, við björgunarstörf. Samkvæmt frásögn þeirra sem voru á jöklinum var veðurhæð talsvert meiri en spár og spákort höfðu gert ráð fyrir og eins þótti athyglisvert að svo virtist vera sem ferðalangar gengju ofan í óveðrið niður af jöklinun suðaustur af Grímsvötnum. Velt er vöngum yfir nokkrum spám, m.a. HRAS og HIRLAM, í aðdraganda þessa veðurs og eins kenningum þess efnis hvað olli og hví spálíkönin eru ekki að ná vindröstum á jökli eins og þessari.

Fréttnæmir veðuratburðir, árstíðasveifla og langtímabreytingar

Trausti Jónsson
Unnið er að skrá um „fréttnæma“ veðuratburði 1874 til 2008. Árstíðasveifla þeirra flestra hefur áður verið rannsökuð en ekki sameiginlega. Á tímabilinu hafa orðið miklar breytingar á tjónnæmi gagnvart mismunandi atburðaþáttum og einnig hefur aðgengi upplýsinga verið mjög misjafnt á tímabilinu. Þessir tveir þættir eru mjög ráðandi þegar litið er á langtímaþróunina og erfitt er að „leiðrétta(?)“ fyrir þeim nema með skipulagðri leit að atburðum á upplýsingarýrum tímum.

Langtímaspá