Fræðaþing 2015-2016

Jólaþing Veðurfræðifélagsins


Trausti Jónsson
Á aðventu 1925

Þegar Gunnar Gunnarsson samdi skáldsögu sína „Aðventu“ er víst talið að hann hafi stuðst við frásögn af vist Benedikts Sigurjónssonar (Fjalla-Bensa) á fjöllum á aðventunni 1925. Benedikt var „vanur maður“ og ekki fóru menn að undrast verulega um hann fyrr en ekkert hafði spurst til hans í röska viku – en þá voru leitarsveitir kallaðar út. Desember 1925 fær eftirfarandi einkunn í „Veðráttunni“ – „Norðan átt var ríkjandi í þessum mánuði. Tíðin var þó fremur hagstæð, nema á Norðurlandi“. Í erindinu verður fjallað nánar um aðventuveðrið og hvað þá var á seyði. – Eitthvað verður líka sagt um stöðvakerfið og mælingar á þessum tíma.

Einar Sveinbjörnsson
Samanburður á Vegagerðarvindhviðum og hviðum Veðurstofunnar

Langflestir vindmælar hérlendis eru skrúfumælar af gerðinni Young. Þeir geta mælt vindhraða og vindátt í hárri tíðni þ.e. 4Hz sem samsvarar gildi á 0,25 sek fresti. Staðall WMO (Alþjóða Veðurfræðistofnunarinnar) kveður á um það að vindhviða sé mæld sem augnabliksvindur í 3 sek. Veðurstofan fylgir staðlinum í sínum mælingum á meðan Vegagerðin hefur frá fyrstu tíð (í næstum 25 ár) birt sína vindhviðu sem 1 sek. vind. Settir voru sérstaklega upp aukamælar á þremur veðurstöðum Vegagerðarinnar (Markarfljót, Festarfjall og Bræðratunguvegur), sem forritaðir voru fyrir 3 sek hviðu. Skoðað er hverju munar á mældri hviðu í 1 sek samanborði við 3 sek. En líka var kannað í sömu rannsókn hver áhrif myndavélamasturs er á vindmælingarnar. Með tveimur vindnemum á slá sitthvorumeginn mastursins var unnt að meta truflun af sjálfu mastrinu. Gerð verður grein fyrir niðurstöðum þessarar tveggja litlu athugana.

Páll Bergþórsson
Loftslagslíkan jarðar

Fundin er summa 71 árs keðjubundins meðalhita og sinuslaga 70 ára bylgjulínu,
á norðurhveli, 30°N til 30°S, suðurhveli, og jörð sem heild, á tímabilinu 1885 – 2100.
Borin saman við árlegar mælingar fram að þessu.

Guðrún Nína Petersen
Kortlagning aftakavinda á Suðvesturlandi

Útdrátt vantar sem stendur

Haraldur Ólafsson
Snýst hann?

Í tengslum við dreifingu mengunar frá eldgosum eða öðrum uppsprettum óhreins lofts vaknar sú spurning hvort algengt sé að vindátt breytist mikið og óforvarendis.

Til að varpa ljósi á málið hafa mælingar á vindi á klukkustundarfresti á 10 ára tímabili á Hveravöllum á Kili verið skoðaðar. Sé aðeins horft til vinds yfir 6 m/s kemur í ljós að vindur snýst tvisvar til gagnstæðrar áttar innan klukkustundar og 47 sinnum, eða í 0,05% tilvika um meira en 90˚. Hliðstæðar tölur í vindi yfir 8 m/s eru 0 og 11. Í 7 af þeim 11 tilvikum var vindáttarbreytingu spáð, enda tengdist hún lægðagangi. Í þeim 4 tilvikum sem eftir standa blés vindur af Hofsjökli eða Langjökli sem er í samræmi við þá reglu að standi vindur í fjallahæð af fjöllum er hættara við vindáttarflökti en ella. Í stuttu máli má segja að nái vindur styrk stinningsgolu er afar sjaldgæft að mikil og snögg breyting verði á vindátt og þá sjaldan það gerist er líklegast að það hafi verið fyrirsjáanlegt. Fjallað verður um hitahvörf yfir Íslandi, hvaða máli þau skipta og hvernig þau koma fram í líkanakeyrslum.

Sumarþing Veðurfræðifélagsins


Haraldur Ólafsson
Hitahvörf yfir Íslandi

Fjallað verður um hitahvörf yfir Íslandi, hvaða máli þau skipta og hvernig þau koma fram í líkanakeyrslum.

Þórður Arason
Íslenskt ljósbrot

Í eldgosum er flæði gosefna mikilvægur kvarði á stærð þeirra og í sprengigosum má tengja flæðið við hæð gosmakkar. Veðursjár eru miklvægustu tækin til að mæla hæð gosmakka, og geta gefið upplýsingar um hæðina óháð birtu, skyggni og veðri. Við úrvinnslu veðursjárgagna og mat á gosmakkarhæð er tekið tillit til ljósbrots í andrúmslofti og þar er miðað við alþjóðlega staðlaðan lofthjúp.

Hægt er að reikna brotstuðul lofts út frá venjulegum veðurathugunum. Gerð er grein fyrir brotstuðli andrúmslofts við yfirborð á Íslandi og breytileika hans og niðurstöður bornar saman við heitari og kaldari svæði jarðar. Ástand lofthjúps yfir landinu er mælt tvisvar á sólarhring með sleppingu loftbelgs á Keflavíkurflugvelli, en slíkar mælingar hafa verið gerðar í yfir 70 ár. Þær mælingar sýna hvernig brotstuðull loftsins lækkar með hæð. Sýnt verður hvernig nýta má háloftaathuganir til að reikna raunverulegt ljósbrot veðursjárgeisla á leið frá veðursjá að eldfjalli.

Lagt er mat á mun á gosmakkarhæð þegar reiknað er með stöðluðum lofthjúp eða mældu ljósbroti yfir Íslandi. Ennfremur er lagt mat á breytileika í slíku hæðarmati út frá stóru safni mælinga á íslensku ljósbroti.
Eyrarbakki í hillingum, 14. júní 2015. Ljósmynd: Þórður Arason.Eyrarbakki í hillingum, 14. júní 2015. Ljósmynd: Þórður Arason.

Bolli Pálmason
Leiðrétting á hitaspám

Spálíkönin spá m.a. fyrir um hita í 2. metra hæð yfir jörð, en í þeirri hæð eru mælingar á hita gerðar – bæði mannaðar og sjálfvirkar. Sannprófanir eru svo gerðar á líkönunum með því að bera saman mælingu og spá og þá kemur oft í ljós skekkjur sem má rekja til ólíkra þátta. Oftast eru skekkjurnar kerfisbundnar og því hægt að beita einföldum (eða flóknum) aðferðum við að lagfæra þessar kerfisbundnu skekkjur. Kynnt verður mjög einföld aðferð til að leiðrétta hitaspár.

Einar Sveinbjörnsson
Sumar breytingar frá aldamótum

Mynd úr ranni Trausta Jónssonar (http://trj.blog.is/blog/trj/entry/2173268/) sem sýnir greinilega
veikingu vestanáttar í háloftunum kallar á frekari skoðun á þeim breytingum sem hafa orðið á lofthringrásinni. Þrýstifarið í júní – ágúst síðustu 15 ára er skoðað, sem og lega háloftastrauma og tíðni vindátta á jörðu niðri. Samanburður einnig við vetrarmánuðina þar sem leitni er mun ógreinilegri og jafnvel engin á sömu árum. Er þessiklára breyting á sumarveðráttunni á Ísland hluti af þekktum sveiflum eða er aukin tíðni austan- og norðaustanáttar á landinu e.t.v. veruleiki sem búið verður við til frambúðar?
Tíðni vestanáttar í 500 hPa að sumarlagi. Mynd: Trausti Jónsson.
Tíðni vestanáttar í 500 hPa að sumarlagi. Mynd: Trausti Jónsson.

Páll Bergþórsson
Fyrsta nothæfa tölvugreining veðurkorta

Ágrip vantar


Góuþing Veðurfræðifélagsins


Aðventuþing Veðurfræðifélagsins


Einar Sveinbjörnsson
Mikil frostrigning 27. október 2015 í Dölum, í Hrútafirði og vestantil á Norðurlandi

Hún kom mönnum verulega í opna skjöldu frostrigning síðdegis og að kvöldi 27. október. Nokkrir bílar lentu út af og mun fleiri komust í vandræði þegar þeir misstu veggrip og lentu öfugt á veginum eða hálfir út af. Frostrigning þessi er líklega sú umfangsmesta sem orðið hefur hélendis a.m.k. í nokkur ár. Rakinn verður veðuraðdragandi og hvernig reiknaðar spár brugðust hver af annarri. Að lokum verður velt upp tíðni staðbundins frostúða eða -rigningar út frá veðurathugunum.

Gabriel Sattig
The Brusi Experiment – High resolution analysis of summer precipitation in the East Fjords

In the summer of 2008 35 recording rain gauges were set up all over Seyðisfjörður in order to identify and analyse patterns of the spatial distribution of precipitation in single events and the total summer precipitation. The patterns will be discussed and a few cases will be presented.

Sjálfvirkur úrkomumælir á Seyðisfirði 2008. Ljósmynd: Sveinn Brynjólfsson.Sjálfvirkur úrkomumælir á Seyðisfirði 2008. Ljósmynd: Sveinn Brynjólfsson.

Mælingar úrkomu í Brúsa á Austfjörðum, frá júlí til september 2008.Mælingar úrkomu í Brúsa á Austfjörðum, frá júlí til september 2008.

Trausti Jónsson
Framsýni, núsýni, nærsýni – en þó aðallega baksýni

Fjallað um stutta lýsingu á veðurfari tímabilsins 1800 til 1840 sem birtist í tímaritinu „Gesti Vestfirðingi“ 1846 og frétt um hlýnandi veðurfar í fréttablaðinu „Austra“ í janúar 1912. Minnst verður á fleira fornt gefist tími til.

Björn Erlingsson
Sjávarflóð á lágsvæðum, – aðferð við bráðabirgðamat á tíðni sjávarflóða við Skutulsfjarðareyri

Sjávarflóðamat sem byggir á einsleitum gögnum um sjávarhæð eða flóðasögu. Nægjanlega löng flóðasaga til nota við sjávarflóðamat hefur tiltölulega fáa viðburði með verulega óvissu um sjávarhæð. Ríkjandi
þættir í mótun flóðalíkinda á hverjum stað eru samlíkur á loftþrýstingsfalli og stórstreymis.

Í sjávarhæðarmælingum má greina í sundur áhlaðanda [fyllur] og sjávarfallið. Þannig má fá fram tíðni sjávarflóða með reiknuðum samlíkum á öfgagildum fylla og stórstreymis, – þumalfingursreglan er
að líkur á fyllu séu tífaldar líkur sjávarflóða á stórstreymi (2-3 dagar á 28 daga fresti). Þannig gefur 10 ára mælisería af sjávarhæð forsendur til að reikna samlíkur á stórstreymi og fylla sem jafngildir 100 ára flóðasögu á tilteknum stað.

Utan Reykjavíkurhafnar er lítið um langar (> 10 ára) mæliseríur á sjávarhæð og víða mjög takmarkað og á sumum stöðum tæplega til að ákvarða meðalsjávarhæð.

Tillaga að aðferð við bráðabyrgðamat gengur út á að yfirfæra tölfræðilegar upplýsingar milli staða þar sem byggja má á styttri (úr lengri) mælingum á sjávarhæð og sjávarföllum og hlutfallslegri tíðni sjávarflóðaviðburða milli svæða.

Þessi einföldun tekur lítið tillit til staðhátta annað en þær upplýsingar sem liggja fyrir í sjávarfallagögnum og tölfræðilegum upplýsingum um flóðatíðni og veðurfar á viðkomandi svæði.

Forsendur þessa byggja ganga út frá því að sjávarflóðin verði til við sambærilegar veðuraðstæður þrjár óháðar leiðir þar sem:
1. sjávarflóðbylgjan fari um landgrunnið eins og þyngdarbylgja, líkt og farið er um sjávarföllin.
2. flóðhæð af einni tíðni til annarar er háð hlutfalli milli tíðnanna
3. meðalfylla að viðbættu meðalstórstraumsflóði er sambærilegt við 10 ára (10% líkur) flóðið og að viðbættu hámarksflóði 100 ára (1% líkur) flóðið.

Það er skemmst frá því að segja að þessar 3 aðferðir skila sömu niðurstöðu innan skekkjumarka mælinga á sjávarhæð og landhæð.

Tölugildin voru færð inn í landhæðarlíkan og svæði 10 ára og 100 ára flóða ákvörðuð með því að tengja svæði þar sem fæðing flóðvatns átti greiða leið að teknu tilliti til sjóvarna og höfuðátta ágjafar í
veðrum. Niðurstöðurnar komu vel heim og saman við mat heimamanna og skipulag byggðar og landforma á Skutulsfjarðareyri við Ísafjarðardjúp.

Páll Bergþórsson
Áhrif hafíss og koltvísýrings á loftslags í ýmsum beltum jarðar

Ágrip vantar

Þorsteinn Þorsteinsson
Afkomumælingar á Hofsjökli 1989-2015

Ágrip vantar

Bolli Pálmason
Uppfærsla á HARMONIE veðurspálíkaninu haustið 2015

Ágrip vantar

Guðrún Elín Jóhannsdóttir
Uppgufun í Reykjavík 1968-2006

Í sumar var unnið úr mönnuðum uppgufunarmælingum sem safnað var í mælireit Veðurstofunnar í Reykjavík, sumrin 1968-2006. Flest árin var uppgufun mæld daglega frá maí til október. Eftir 2006 var uppgufun mæld á sjálfvirkan hátt og voru þau gögn ekki notuð. Uppgufun var borin saman við nokkra veðurþætti: lofthita, rakastig, úrkomu, skýjahulu, vindhraða, vindátt, loftþrýsting, fjölda sólskinsstunda o.fl. Í ljós kom að sólskin og veðurþættir tengdir því hafa úrslitaáhrif á uppgufun. Fjöldi sólskinsstunda ná að útskýra 55% af breytileika í mælingunum og ef bætt er við rakastigi og skýjahulu má útskýra 62%. Uppgufunin er í takt við sólargang og nær að jafnaði hámarki við sumarsólstöður. Sýndar verða helstu niðurstöður þessarar rannsóknar.

Mælingar á uppgufun hafa farið fram á sumrin síðan
1972 í uppgufunarpönnu í mælireit Veðurstofunnar.  Ljósmynd: Þórður Arason 22. júlí 2015.Mælingar á uppgufun hafa farið fram á sumrin síðan 1972 í uppgufunarpönnu í mælireit Veðurstofunnar. Ljósmynd: Þórður Arason 22. júlí 2015.

Haraldur Ólafsson
Sólfarsvindar fyrr og síðar

Í Eglu er sólfarsvindum lýst harla vel, enda víst að skipstjórar á miðöldum hafi þekkt þá og leiðin stutt milli skipstjóra og sagnaritara. Þekking á sólfarsvindum skiptir höfuðmáli í framvindu Egils sögu og menn Noregskonungs hljóta ill örlög sem rekja má til lítillar þekkingar á veðurfræði í bland við almenna grunnyggni.

Höfundur Eglu telur það sem oft er nefnt landgola vera fallvind og er það á skjön við verk ýmissa höfunda efnis fyrir alþýðu á síðari tímum. Reiknitilraunir benda til að höfundur Eglu hafi þar réttara fyrir sér og að sumir síðari tíma menn hafi runnið til á svelli vísindanna.

Sumarþing Veðurfræðifélagsins


Andréa Massad
Evaluation of surface temperature and wind speed in mesoscale simulations of the atmosphere over Iceland

A four year-long series of simulated temperature and wind speed has been
compared to observations recorded at nine stations in Iceland. The
greatest errors between simulation and observation have been singled out
and studied from a physical point of view in order to present a
classification of the most frequent causes at their origins.

For the temperature, the results showed that incorrect surface fluxes and
radiation were the main causes of errors. Orographic effects proved to be
an important source of errors for the simulation of the wind speed, even
though the stations were selected in the vicinity of well-resolved
topography. The boundary conditions provided by the ECMWF appear to be of
good quality.

Andri Gunnarsson
Snjómælingar Landsvirkjunar

Snjór er mikilvægur hluti þess vatns sem rennur til lóna og miðlana fyrirtækisins. Árið 2014 var ræst verkefni sem miðar að því að þekkja snjóstöðu í vatnasviðum Landsvirkjunar að vori til. Bæði með auknum mælingum í veðurstöðvum, beinum mælingum á vatnsígildi og snjóþykkt með radar og gögnum úr veðurlíkönum. Kynntar verða fyrstu niðurstöður fyrir vorið 2015.

Hálfdán Ágústsson, Haraldur Ólafsson, Finnur Pálsson og Helgi Björnsson
Úrkoma á hverfandi(a) jökulhveli

Dreifing úrkomu á og við stóru íslensku jöklana ræðst að miklu leyti af stærð og umfangi jöklanna sjálfra. Sýndar verða helstu niðurstöður líkankeyrslna sem gerðar hafa verið til að kanna þessi áhrif og mögulegar breytingar í dreifingu úrkomunnar ef jöklarnir hyrfu í einu vetfangi. Ef Vatnajökull hyrfi þá gæti úrkoma á því svæði sem hann þekur dregist saman um 15% að jafnaði en allt að 25% á afmörkuðum svæðum. Stærri hluti úrkomunnar kemst yfir vestan- og norðanverðan jökulinn en áður en þó breytingar yrðu líklega hverfandi í úrkomuskugganum norðan jökulsins. Niðurstöðurnar eru m.a. mikilvægar tengslum við áætlanir í tengslum við virkjun vatnsafls í hlýnandi veðurfari.

Mögulegar breytingar í úrkomu á árs grundvelli ef Vatnajökull hyrfi

Mögulegar breytingar í úrkomu á árs grundvelli ef Vatnajökull hyrfi

Tandri Gauksson
Flóðahorfur í Reykjavík næstu ár

Tölfræðileg greining á sjávarhæðarmælingum í Reykjavíkurhöfn á árunum 1996 – 2013 gefur nýtt mat á tíðni og hæðum sjávarflóða.
Einfalt líkan fæst með því að leiðrétta tímaröðina fyrir sjávarstöðuhækkun og sjávarföllum og framkvæma öfgagreiningu (e. extreme value analysis) á því sem eftir verður.
Rætt um gæði líkans, samanburð við eldri greiningu (1993) og næstu skref.

Sjávarstöðubreytingar 1996-2013 í Reykjavík

Sjávarstöðubreytingar
1996-2013 í Reykjavík

Einar Sveinbjörnsson
Sérstætt og áhugavert hviðuveður í Öræfasveit 28. apríl 2015

Þann 28 apríl sl. var hvöss NA-átt smám saman að ganga niður suðaustanlands. Upp úr miðjum degi hvessti skyndilega í um 2 klst. og gerði mjög harða bylji í Öræfasveitinni, allt að 46 m/s í hviðum. Tvö óhöpp urðu, rúta með 34 farþegum lenti í erfiðleikum og húsbíll splundraðist. Þarna voru fjallabylgjur á ferðinni og upphitun sólar á Skeiðarársandi átti að líkindum þátt í broti þeirra sem skilað hnútunum niður á láglendi. Svokallað ókyrrðarábendi úr Harmonie spálíkaninu sýndi glöggt bylgjubrotið og getur vel gagnast við spár í svipuðum aðstæðum og þarna voru.

Frétt um veðrið 28. apríl 2015

Frétt um veðrið 28. apríl 2015

Guðrún Nína Petersen og Bolli Pálmason
Illviðrið 14. mars

Útdrátt vantar

Trausti Jónsson
Misjafnt eðli illviðra við Ísland

Illviðri eru algeng á Íslandi. Eðli þeirra er hins vegar mjög misjafnt og sýnir sig vel í samspili hálofta- og þykktarvinda. Fjallað verður lauslega um nokkur dæmi auk þess sem meðaltöl eru reiknuð. Sitthvað kemur þá í ljós.

Þorraþing Veðurfræðifélagsins


Guðrún Nína Petersen
Veðurmælingar á Drekasvæðinu 2008-2009

Kate Faloon
The role of lidars for the detection of volcanic ash in the atmosphere

Trausti Jónsson
Þykktar- og hringrásarhiti 2014

Bolli Pálmason
Endurgreiningakort

Einar Sveinbjörnsson
Mánaðarspár ECMWF og frekari hagnýting þeirra
Trausti Jónsson: Sjónvarpsveðurspá 3. janúar 1983 fer í vaskinn (eða)?