Styrkir vegna 27. norræna veðurþingsins
Aðalfundur Veðurfræðifélagsins þann 11. febrúar 2010 samþykkti að styrkja félaga til þátttöku í 27. norræna veðurþinginu sem verður haldið í Helsinki 7.-11. júní næstkomandi, sjá einnig frétt 22. janúar um þingið. Styrkurinn nemur ráðstefnugjaldi, sem eru 50 evrur fyrir stúdent en 150 evrur fyrir aðra.
Einnig hefur Evrópska veðurfræðifélagið, EMS, tilkynnt að það muni styrkja tvo vísindamenn yngri en 35 ára, til að sækja norræna þingið. Styrkur EMS nemur 500 evrum, sjá auglýsingu . Umsóknarfrestur er 15. mars 2010.
Stjórn Veðurfræðifélagsins auglýsir hér með að félagið mun styrkja allt að fimm félaga til þátttöku á norræna þingingu. Þeir félagar ganga fyrir sem þurfa sjálfir að standa straum af kostnaði við för sína á þingið en fá ekkert greitt frá vinnuveitanda. Þeir félagar sem voru yngri en 35 ára í janúar 2010 eru einnig beðnir um að sækja um styrk evrópska veðurfræðifélagins.
Til að sækja um styrk Veðurfræðifélagsins skal senda stutta umsókn til félagsins, á: “vedurfraedifelagid hja gmail.com” fyrir sumardaginn fyrsta. Styrkþegar skulu annað hvort vera með innlegg á norræna þinginu eða erindi á næsta haustþingi Veðurfræðifélagsins þar sem efni af norræna þinginu yrði kynnt. Í umsókninni þarf að koma fram nafn, aldur, menntun og starfsvettvangur. Jafnframt eru umsækjendur beðnir um að taka fram á hvoru þinginu þeir ætli að vera með erindi.
Stjórn Veðurfræðifélagsins